Innlent

Dreifi gulli rétt fyrir kosningar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að ríkisstjórnin sé að dreifa gullinu rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar, með ákvörðun sinni um hvernig söluandvirði Símans skuli varið. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar verður 32 milljörðum króna af þeim 67 milljörðum sem fengust fyrir Símann varið til að greiða strax niður erlendar skuldir. Afgangurinn verður lagður inn á reikning til ársins 2007 þegar fyrirhugað er að hefja ýmsar framkvæmdir, en 43 milljarðar fara meðal annars í að byggja upp nýtt hátæknisjúkrahús og vegagerð. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að tillögur ríkisstjórnarinnar komi sér ekki á óvart. Staðan í efnahagslífinu sé þannig að skynsamlegt sé að bíða með að setja fjármuni í hagkerfið til ársins 2007, þegar fyrir liggi að niðursveifla verði og ríkissjóður verði ekki eins vel staddur og nú. Ingibjörg Sólrún segir að hún telji hins vegar ansi vel í lagt hjá ríkisstjórninn að ráðstafa 43 milljörðum inn á næsta og þarnæsta kjördæmabil en frekar hefði átt að bíða aðeins átekta með það. Menn ættu að ávaxta sitt pund núna og gefa þessu aðeins ráðrúm. Spurð hvers vegna hún telji það segir Ingibjörg Sólrún að menn eigi ekki að vera ráðstafa svona miklum fjármunum fram í tímann. Þetta séu engir smáaurar. Hún hefði talið að menn ættu að ávaxta féð og greiða niður skuldir. Það sé hægt að hugsa sér að fara svipaða leið og Norðmenn hafi farið með sinn olíusjóð og bjóða ávöxtunina út til erlendra fjármálastofnana og taka síðan gjaldeyri inn í landið þegar krónan fari að lækka. Hún telji að verið sé að dreifa gullinu rétt fyrir kosningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×