Innlent

Ólafur og Clinton ræddust við

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti í gær viðræðufund með Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í New York, en Ólafur Ragnar tekur nú þátt í alþjóðlegri ráðstefnu, Clinton Global Initiative, í boði Clintons. Fjölmargir þjóðarleiðtogar víða að úr veröldinni, forystumenn á alþjóðavettvangi, fræðimenn og áhrifamenn í vísindum og viðskiptum sitja einnig ráðstefnuna. Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands kemur fram að Ólafur Ragnar og Clinton hafi einkum rætt um þrennt: baráttuna gegn alnæmi í veröldinni og hvernig samstarf íslenskra og indverskra lyfjafyrirtækja gæti leitt til framleiðslu á alnæmislyfjum á ódýrari hátt en áður, hvernig reynsla Íslendinga á sviði umhverfisvænnar orku, bæði nýting jarðhita og tilraunir með nýtingu vetnis í almenningssamgöngum, gæti skapað grundvöll að raunhæfri umræðu um nýjar leiðir til að hamla gegn loftslagsbreytingum og hvernig frumkvæði Magnúsar Scheving og Latabæjar hefur varpað nýju ljósi á baráttuna gegn offitu barna og ungmenna með hvatningu til að stunda íþróttir og neyta einkum heilsusamlegrar fæðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×