Innlent

Stjórnarandstaðan saklaus

"Það opinberast fyrir framan alþjóð að stjórnarliðar tala í austur og vestur. Ríkisstjórnin hefur haldið á þessu eins og hún ætli sér í framboð til öryggisráðsins og hefur varið til þess miklum fjármunum," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. Hún segir að þessi sama ríkisstjórn tali nú eins og engin ákvörðun hafi verið tekin. "Menn tala svona út og suður í báðum stjórnarflokkunum. Samfylkingin hefur stutt framboðið og við höfum ekki séð ný rök fyrir því að hoppa eigi af vagninum nú þrátt fyrir glundroðann á hægri vængnum," segir Ingibjörg Sólrún. "Það er fráleitt að stjórnarandstaðan sé að gera framboð til öryggisráðsins að átakamáli milli stjórnarflokkanna," segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna. Ögmundi finnst mikilvægt að fá botn í málið hið fyrsta og að Íslendingar eigi að hefja sig yfir karpið og hugsa um hagsmuni Íslands út á við. "En fram hjá því verður ekki horft að það er ágreiningur um þetta innan stjórnarliðsins. Það er út af fyrir sig styrkleikamerki að tala opinskátt um þann ágreining eins og Hjálmar og fleiri hafa gert," segir Ögmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×