Innlent

Mannréttindanefndin rúin trausti

"Mun meiri vinnu er þörf," sagði Davíð Oddsson utanríkisráðherra um umbætur á skipulagi Sameinuðu þjóðanna í ræðu sinni á sextugasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi. Davíð sagði Ísland hafa haft miklar væntingar til leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku en áréttaði að taka þyrfti á mannréttindamálum með meira afgerandi hætti en verið hefur. "Skoðun Íslands er að mannréttindi og ábyrgð ríkja gagnvart þegnum sínum séu atriði sem ekki er nægilega vel tekið á," sagði hann. Davíð sagði mannréttindanefnd SÞ rúna trausti og í raun óstarfhæfa. "Trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna er ógnað," sagði hann og benti á að fyrir lægi samþykkt um stofnun sérstaks mannréttindaráðs. "Það ætti að vera smærra í sniðum en nefndin og starfa árið um kring til að geta brugðist við neyðaraðstæðum. Skipan í ráðið ræður úrslitum um virkni þess, en í því eiga ekki að vera fulltrúar ríkja sem uppvís hafa orðið að stórfelldum mannréttindabrotum." Þá ræddi Davíð um starfsemi Öryggisráðsins og minnti á að Ísland hefði þegar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna lýst vilja sínum til virkrar þátttöku í ráðinu árin 2009 og 2010.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×