Innlent

Símapeningarnir í jarðgangagerð

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Vestfirðinga, var hætt kominn á veginum um Óshlíð á laugardag. Hann segist vongóður um að ríkisstjórnin fallist á jarðgangagerð og vill að símapeningarnir verði notaðir til þess. Undanfarið hefur verið mikið grjóthrun á veginum um Óshlíð, frá Hnífsdal til Bolungarvíkur. Kristinn hefur oftar en einu sinni keyrt fram á stór björg á Óshlíðinni og nú síðast um helgina. Hann segir að enn hafi verið hreyfing á hlíðinni og grjótið að setjast sem þar var. Kristinn vill sjá varanlega lausn á vandanum og hann telur brýnt að ákvörðun verði tekin fljótlega. Hann vill sjá ein eða tvenn jarðgöng frá Ósi og inn undir Hnífsdal. „Kostar um tvo milljarða króna eftir þeim upplýsingum sem ég tel bestar í þessu efni,“ segir Kristinn. Hann er bjartsýnn á að ríkisstjórnin fallist á jarðgangnagerðina en Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tekur málið upp á ríkisstjórnarfundi næsta þriðjudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×