Innlent

Misskilningur hjá sagnfræðingum

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, segir að misskilnings gæti í ályktun Sagnfræðingafélags Íslands sem gagnrýndi harðlega að Þorsteini Pálssyni, sendiherra og fyrrverandi forsætisráðherra, hafi verið falið að skrifa bók um hundrað ára afmæli þingræðis á Íslandi. Sagnfræðingum finnst fram hjá sér gengið í vali á höfundi bókarinnar, sem þeir telja að ætti að vera hlutverk sagnfræðinga. Sólveig segir ráðningu Þorsteins hafa verið staðfesta af fráfarandi forsætisnefnd án þess að athugasemdir hafi verið gerðar við ráðningu hans. Hún segir misskilning sagnfærðinganna ekki síst felast í því að halda því fram að bók um 100 ára þingræði Íslendinga sé einungis á verksviði einnar fræðigreinar eins og sagnfærði. Hið rétta sé að sögn Sólveigar að rannsóknarvinna fyrir bókina krefjist ekki síður þekkingar í lögfræði og stjórnmálafræði en sagnfræði. Því hafi Þorsteinn, sem sé menntaður lögfræðingur og með sérkunnáttu í stjórnskipunarrétti orðið fyrir valinu. Hann verði þó ekki einn um að skrifa bókina því auk hans hafi verið skipuð ritnefnd sem í sitja Helgi Skúli Kjartansson, prófessor í sagnfræði við Kennaraháskóla Íslands, og dr. Ragnhildur Helgadóttir, lektor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík. Aðspurð sagði Sólveig að vinna við bókina ætti ekki að trufla störf Þorsteins í utanríkisþjónustunni enda byrji bókarskrifin fyrir Alþingi ekki fyrr en eftir áramót, Þorsteinn muni láta af störfum sem sendiherra 1. nóvember. Sólveig segir ekki ljóst hvað Þorsteinn muni fá í sinn hlut fyrir ritstörfin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×