Innlent

Vilja lækka vexti með lögum

Lækka á yfirdráttarvexti og dráttarvexti með lögum, segir Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, á heimasíðu sinni. Hún segir Seðlabanka hafa of rúmt svigrúm til að ákveða háa dráttarvexti og vill breyta lögum þannig að þetta svigrúm minnki auk þess sem hún segir að breyta ætti lögum um vexti og verðtryggingu svo yfirdráttarvextir lækki. Jóhanna bendir á að dráttarvextir séu 20,5 prósent hér á sama tíma og þeir séu innan við tíu prósent á hinum Norðurlöndunum. Þessu vilji nokkrir þingmenn Samfylkingar breyta og hafi lagt fram frumvarp þar um. Jóhanna segir brýna þörf á að lækka yfirdráttar- og dráttarvexti. "Okurvextir vegna vanskila og yfirdráttarlána hafa oft sett skuldug heimili og fyrirtæki í óleysanlegan vítahring sem iðulega hefur endað með gjaldþroti." "Á Alþingi hef ég lagt fram frumvarp ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar sem stuðla á að verulegri lækkun dráttarvaxta með því að þrengja það svigrúm sem Seðlabankinn hefur til að ákveða vanefndaálag," segir Jóhanna og bætir við að tveggja prósenta lækkun vaxta á yfirdráttarlánum hefur í för með sér um tveggja og hálfs milljarðs króna lækkun vaxta á yfirdráttarlánum einstaklinga og fyrirtækja eins og þau eru nú.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×