Innlent

Bensínstyrkur sleginn af

720 milljóna króna bensínstyrkir til hreyfihamlaðra hafa verið slegnir af samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær. Þetta jafngildir átta þúsund krónum á mánuði fyrir sjö þúsund heimili í landinu. Framkvæmdastjórn Öryrkjabandalagsins kom saman til fundar í hádeginu til að ræða viðbrögð við þessum tíðindum. Mörgum öryrkjum finnst það hlálegt að á sama tíma og ríkisstjórnin hafi gagnrýnt ónóga atvinnuþátttöku öryrkja sé dregið úr möguleikum þeirra til sjálfsbjargar. Ragnar Gunnar Þórhallsson, formaður Sjálfsbjargar, segist að félaginu finnist þetta vera í algjörri mótsögn við þá umræðu sem verið hafi í fyrra þegar hin svokallaða öryrkjaskýrsla leit dagsins ljós og öryrkjar voru m.a. ásakaðir um að nenna ekki að vinna. Þessi aðgerð stjórnvalda og ýmsar fleiri hafi stefnt í ranga átt. Hluti þeirra rúmu 700 milljóna sem sparast eigi að fara til að hækka tekjutryggingarauka þeirra öryrkja sem ekki eru í vinnu. Eftir standa 300 milljónir í hreinan og kláran sparnað. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir sjö þúsund manns í landinu hafa notið bensínstyrksins sem hafi verið notaður til að hvetja fólk til að vera virkt í vinnu og tómstundum og taka þátt í samfélaginu. Helgi segist varla trúa því að ríkisstjórnin fylgi eftir svikunum á svokölluðu öryrkjasamkomulagi með þessum hætti. Hann segist telja að þetta sé ekki síst áhyggjuefni um hugarfar því fyrir tveimur árum hafi stjórnvöld skert réttinn til bifreiðakaupastyrkja hjá sama hópi um leið og sótt hafi verið um aukafjárveitingar til að endurnýja ráðherrabifreiðarnar hraðar. Þegar menn telji stöðu ríkissjóðs svo gríðarlega sterka að þeir sæki í stuðning sem muni hreyfihamlaða miklu sé það fyrst og fremst áhyggjuefni um hugarfar stjórnvalda. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×