Innlent

Ekki skortur á aðhaldi

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði í upphafi stefnuræðu sinnar á Alþingi í gærkvöldi að ný lífskjarakönnun Sameinuðu þjóðanna sýndi að Ísland væri næstbesta landið í heiminum að búa í. Fyrir áratug hefði staðan verið önnur. Hagvöxtur væri meiri hér en í nálægum löndum og atvinnuleysi hvergi minna. Kaupmáttur heimilanna hefði einnig aukist meira en í nokkru nálægu landi. Þá stæði fyrir dyrum tugmilljarða uppgreiðsla erlendra skulda ríkissjóðs með söluandvirði Símans. „Í þessu ljósi sætir nokkurri furðu gagnrýni um að aðhald ríkis-fjármála hafi ekki verið nægilega mikið. Það liggur fyrir að frá árinu 2003 hefur aðhaldsstig ríkis-fjármála aukist meira hér en í nokkru öðru OECD-ríki." Halldór gat í lok ræðu sinnar um það að útlit væri fyrir að verulega hægði á umsvifum við lok næsta árs. Við því yrði brugðist með stórauknum framlögum til rannsóknar- og frumkvöðlastarfsemi, meðal annars af söluandvirði Símans. Í stefnuræðunni boðaði Halldór ný rammalög um háskóla. „Markmið þeirra er að tryggja að gæði háskólamenntunar hér séu á heimsmælikvarða og prófgráður njóti fullrar viðurkenningar. Jafnframt er ætlunin að jafna stöðu ríkisrekinna háskóla og þeirra sem reknir eru af öðrum." Halldór ræddi stöðu fjölskyldunnar og sagði að verið væri að kanna hvernig bæta mætti réttindi foreldra með börn á aldrinum níu til átján mánaða. Slíkar fjölskyldur yrðu að brúa bilið frá lokum fæðingarorlofs þar til börnin næðu leikskólaaldri. Þingsályktunartillaga verður lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar um búsetuskilyrði á landsbyggðinni fram til ársins 2009. Að sögn forsætisráðherra fjallar hún um eflingu landshlutakjarna, aðlögun byggðarlaga að breytingum á atvinnuháttum og stuðning stjórnvalda við atvinnulíf, menntun, menningu og félagslegt jafnræði á landsbyggðinni. Forsætisráðherra gerði endur-skoðun stjórnarskrárinnar að umtalsefni og sagði að uppi væru óskir um að fulltrúalýðræðið yrði endurnýjað þannig að almenningur fengi færi á að taka virkan þátt í ákvarðanatöku um sameiginleg málefni, „ekki einungis í þingkosningum á fjögurra ára fresti heldur einnig þess á milli, til dæmis í þjóðaratkvæðagreiðslum." Þótt íslensk stjórnsýsla væri talin mjög skilvirk sagði Halldór að huga þyrfti að því að gera löggjöf eins skýra og einfalda og kostur væri. Af því tilefni hefði ríkisstjórnin ákveðið að hrinda af stað sérstöku átaki undir heitinu „Einfaldara Ísland". Ráð væri fyrir því gert að hvert ráðuneyti færi yfir lög og reglur, sem undir það heyra, með það fyrir augum að einfalda regluverkið og draga úr skriffinnsku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×