Innlent

Vonbrigði yfir fjárlagafrumvarpi

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir vonbrigðum með þá efnahags-, atvinnu- og félagsmálastefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í ályktun sem hún sendi frá sér í dag. Þar kemur enn fremur fram að á grundvelli eigin fjárlagafrumvarps spái fjármálaráðuneytið um fjögurra prósenta verðbólgu næstu árin, miklu ójafnvægi í þjóðarbúskapnum og áframhaldandi háum vöxtum og sterku gengi með tilheyrandi vandræðum fyrir útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegina. Þetta gerist þrátt fyrir að ASÍ, Seðlabankinn og fleiri aðilar hafi kallað eftir ábyrgri efnahagsstefnu og meiri festu í ríkisfjármálum. Ekki verði heldur séð á frumvarpinu að sátt geti verið um þá félagsmálastefnu sem þar birtist. „Miðstjórn ASÍ skorar á ríkisstjórn og Alþingi að taka með ábyrgum hætti þátt í efnahagsstjórninni og beita ríkisfjármálunum með þeim hætti að það dragi úr þörf fyrir harkalegar aðgerðir Seðlabankans í peningamálum samhliða því sem verðbólga lækki. Jafnframt leggur miðstjórn ASÍ áherslu á mikilvægi velferðarkerfisins,“ segir að endingu í ályktuninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×