Innlent

Skattalækkun betri en launahækkun

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir engar forsendur fyrir því að segja upp samningum á vinnumarkaði. Hann segir kaupmátt hafa aukist um 60 prósent á tíu árum og séu skattalækkanir miklu meiri kjarabót en almennar launahækkanir. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar mótmæltu því harðlega við utandagskrárumræður í þinginu í dag að allt væri í kalda koli í efnahagslífinu. Það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, sem hóf umræðuna. Hún vildi meðal annars vita hvort ríkisstjórnin ætlaði að grípa til einhverra aðgerða til að bregðast við fyrirsjáanlegri uppsögn samninga. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagðist hins vegar ósammála því að forsendur kjarasamninga væru að bresta. Kaupmáttur launa hefði hækkað um 60 prósent á síðustu tíu árum og hann spurði hvort það væri slæm efnahagsstefna. Hann sagðist viss um það að aðilar vinnumarkaðarins tækju mið af þessu. Hann væri þess fullviss að það væri besta leiðin til þess að bæta kjör fólks um þessar mundir að lækka skattana en ekki að hækka prósentur launa. Haldið yrði fast við þá stefnu. Stjórnarandstaðan sagði greinilegt ójafnvægi í efnahagsmálunum, og benti á viðskiptahalla sem hefði ekki verið meiri frá stríðslokum og vaxandi verðbólgu. Spurt var hvort það væri rugl í forsvarsmönnum vinnumarkaðarins, talsmönnum bankanna, Seðlabankans og fleiri aðilum að aðhald ríkisins væri ekki nægielgt og fyrirsjáanleg væri uppsögn kjarasamninga. Geir H. Haarde utanríkisráðherra sagði að það væri einhver misskilningur sem verið væri að reyna að koma að að það væri allt í klessu í efnahagsmálum. Staðan í efnahagsmálum væri í aðalatriðum góð og það hefðu allir sem hefðu kynnt sér málið viðurkennt bæði innanlands og utan. Ingibjörg Sólrún sagði að svör forsætisráðherra hefðu verið mjög upplýsandi vegna þess að það sem hann, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra hefðu sagt að ríkisstjórnin ætlaði ekkert að gera. Ríkisstjórnin hefði engu hlutverki að gegna í hagstjórninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×