Innlent

Kosningaþáttaka misgóð í Eyjafirði

Kosningaþátttaka í sameiningarkosningunum á Eyjafjarðarsvæðinu er misgóð eftir sveitarfélögum. Í stærsta sveitarfélaginu, Akureyri, er þáttakan minni en í sameiningarkosningunum 1993 en þá var hún 36 prósent. Stærsta sameiningarkosningin í dag, með tilliti til fjölda sveitarfélaga, snýst um sameiningu níu sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu. Flestir kjörstaðir opnuðu klukkan 10 i morgun og í stærstu sveitarfélögunum er hægt að kjósa til klukkan 10 í kvöld. Tveimur kjörstöðum var lokað klukkan 6 – í Hrísey og Svalbarðsstrandarhreppi. Afar ólíklegt er að stórsameining í Eyjafirði nái fram að ganga í kosningunum í dag þar sem mjög mikil andstaða er við sameiningu á meðal íbúa Grýtubakkahrepps og Eyjafjarðarsveitar. Mestur er sameiningarviljinn í þéttbýlisstöðunum fjórum við Eyjafjörð en brugðið getur til beggja vona í þremur fremur fámennum hreppum. Miðað við fundarsókn á þá kynningarfundi sem haldnir voru má búast við meiri kosningaþáttöku í smærri sveitarfélögunum en þeim stærri. Í sameiningarkosningunum 1993 var kosningaþátttakan á Akureyri aðeins 36 prósent en 46 prósent í Eyjafirði í heild.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×