Innlent

Sameining eina skynsamlega leiðin

Alls var kosið um sextán sameiningartillögur í sextíu og einu sveitarfélagi víðs vegar um landið í dag. Þótt líklegt þyki að margar þeirra verði felldar, segir félagsmálaráðherra sameiningar einu skynsamlegu lausnina og aðeins sé tímaspursmál hvenær af þeim verði. Félagsmálaráðherra var mættur á kjörstað í Hveragerði rétt fyrir tólf á hádegi en fyrstu kjörstaðir voru opnaðir klukkan níu í morgun. Fleiri kjósendur mættu á kjörstað fyrir hádegi. "Ég er á móti sameiningu," sagði Garðar Hannesson, íbúi í Hveragerði. "Ég er nú að flytja héðan svoleiðis að það skiptir ekki máli, en ég ætla samt að segja já," sagði Elínbjörg Kristjánsdóttir. Aðalbjörg Jóhannsdóttir var ekki í neinum vafa um hvað hún ætlaði að gera. "Heldur þú að ég fari nokkurn tíma að segja já við þessu. Aldrei. Selfyssingar bara gleypa okkur." Árni Magnússon, félagsmálaráðherra er sannfærður um að sameining sé eina skynsamlega leiðin. "Þetta er nú mál þess eðlis að það gengur þvert á flokka, það gengur þvert á samfélag, það gengur þvert á fjölskyldur. Þannig að við verðum bara að bíða og sjá."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×