Innlent

Framsókn minnst í borginni

Framsóknarflokkurinn mælist minnstur allra flokka í borginni samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, en aðeins 2,9 prósent þeirra sem tóku afstöðu styðja hann. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur fylgis tæplega 46 prósenta en Samfylkingin er með næstmest fylgi, eða 30,8 prósent. Vinstri - grænir fengju 14,8 prósent ef kosið yrði nú en frjálslyndir 3,9 prósent. Ef könnunin nú er borin saman við könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var í ágúst síðastliðnum kemur í ljós að fygli við Samfylkinguna og Vinstri - græna er nánast óbreytt en það minnkar hjá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Þá leiðir hin nýja könnun í ljós að töluverður munur er á fylgi flokkanna eftir kynjum. Töluvert fleiri konur en karlar kjósa Samfylkinguna og Vinstri - græna en þessu er öfugt farið hjá Sjálfstæðisflokknum. Mestur er þó munurinn hjá Frjálslynda flokknum, en þar eru fimm karlmenn á móti hverri einni konu sem styðja hann. Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð í Reykjavík dagana 6.-10. október. Stuðst var við 1200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá sem náði til Reykvíkinga á aldrinum 18 til 80 ára. Svarhlutfall var 67,7 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×