Innlent

Skoða lagasetningu um einkavæðingu

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra telur að endurskoða þurfi verklagsreglur um einkavæðingu og hugsanlega setja lög um sölu ríkiseigna. Hann hygg -st nú skipa starfshóp sem í samráði við framkvæmdanefnd um einkavæðingu á að gera á tillögur um hvort rétt sé að endurskoða verklagsreglurnar. Tillaga Halldórs var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun. Á minnisblaði sem forsætisráðherra lagði fram á fundinum kemur fram að reglurnar hafi ekki verið endurskoðaðar síðan 1996. „Síðan þá er mikil reynsla komin á reglurnar enda umfangsmikil sala ríkiseigna á grundvelli þeirra farið fram," segir í minnisblaðinu. Í starfshópinn verða skipaðir fulltrúar forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, en ráðherrar þessara fjögurra ráðuneyta sitja í ráðherranefnd um einkavæðingu. Umboðsmanni Alþingis var sent í gær svarbréf við fyrirspurn hans til forsætisráðuneytisins um fyrirkomulag sölu ríkisfyrirtækja og félaga í eigu ríkisins til frambúðar. Í því er umboðsmanni skýrt frá samþykkt ríkisstjórnarinnar og einnig því að engar ákvarðanir hafi verið teknar um frekari sölu ríkiseigna. Hins vegar fari nú fram af hálfu framkvæmdanefndar samantekt á eignarhlutum ríkisins í einstökum fyrirtækjum, félögum, sjóðum og stofnunu. „Ef til vill þykir skynsamlegt út frá samkeppnissjónarmiðum og hagsmunum almennings og ríkisins að kanna betur hvort losa megi þar til frambúðar um eignarhald ríkisins að hluta til eða að fullu. Ljóst er að þegar til lengri tíma er litið verður að teljast sennilegt að sala ríkisfyrirtækja og félaga í samkeppnisrekstri haldi áfram sem og sala á eignarhlutum ríkisins í einstökum félögum," segir í bréfinu.  „Slíkt er hins vegar háð vilja Alþingis og ríkisstjórna á hverjum tíma."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×