Innlent

Undrast viðbótarkostnað

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir sjálfsagt og nauðsynlegt að fara á næstunni yfir eftirlaunamál ráðherra og þingmanna.Um 650 milljóna króna viðbótarkostnaður hefur hlotist af nýju lögunum miðað við upphaflegar áætlanir og ákvæði í lögunum hafa sætt gagnrýni. „Þessi fjárhæð umfram áætlaðar skuldbindingar kemur mér á óvart," segir Halldór. „Maður er vanur að treysta útreikningum sem lagðir eru fram. Það liggur fyrir að þessi nýja löggjöf leiddi til skerðingar á sumum sviðum en aukningar á öðrum. Til dæmis var ljóst að kjör formanna stjórnarandstöðuflokka bötnuðu." Halldór segir að fyrir liggi hugmyndir um hugsanlegar breytingar. „Ég tel að það sé eðlilegt að ræða hugsanlegar breytingar á vettvangi forsætisnefndar þingsins. Það voru fulltrúar allra flokka sem fluttu þetta frumvarp og um það var samkomulag. Ef menn ná saman um breytingar koma þær til greina af minni hálfu. Ég hef sagt það áður og rætt þetta við forseta Alþingis." Fjársýsla ríkisins telur að lífeyrisskuldbindingar ráðherra og þingmanna hafi um síðustu áramót verið liðlega 400 milljónum króna hærri samkvæmt lögunum sem samþykkt voru í desember 2003 en verið hefði samkvæmt gömlu lögunum. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur tekið málið upp og gagnrýnir meðal annars að ráðherrar á besta aldri geti þegið eftirlaun þótt þeir séu í vel launuðum störfum hjá ríkinu. Samkvæmt úttekt Fréttablaðsins í janúar síðastliðnum höfðu að minnsta kosti níu fyrrverandi ráðherrar í fullu starfi rétt til eftirlauna. Sjö þeirra nutu eftirlauna á fullum launum á síðasta ári og námu greiðslurnar samtals um 17 milljónum króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×