Innlent

Á fjórða þúsund hefur kosið í prófkjöri

Prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík hófst í dag og höfðu á fjórða þúsund manna kosið nú skömmu fyrir fréttir. Um nítján þúsund manns hafa kosningarétt, en þeim hefur fjölgað rúm tíu prósent á undanförnum vikum.

Byrjað var að kjósa í Valhöll á hádegi í dag og stendur kjörfundur til klukkan níu í kvöld, en prófkjörið heldur áfram á morgun og verður þá kosið á sjö stöðum víðs vegar um borgina. Kannanir undanfarið hafa sýnt að mjótt sé á mununum milli þeirra Gísla Marteins Baldurssonar og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, sem keppa um fyrsta sætið, en alls eru 24 í framboði. Úrslit prófkjörsins ráða því hverjir munu skipa níu efstu sætin á lista flokksins í næstu borgarstjórnarkosningum.

 

Enn virðist þónokkur hluti kjósenda vera óákveðinn og keppast frambjóðendur nú nú að ná til þeirra með auglýsingum og símhringingum. Ekki nóg með það heldur hefur fréttastofa Stöðvar 2 heimildir fyrir því að að minnsta kosti einn frambjóðandi hafi staðið fyrir rútuferðum frá völdum menntaskólum borgarinnar og fengu þeir nemendur sem vildu kjósa pítsu að launum.

Athygli vakti að Guðjón Guðmundsson, formaður KR, skrifaði pistil á heimasíðu félagsins þar sem hann hvatti KR-inga til að styðja tvo ákveðna frambjóðendur í prófkjörinu. Eftir að sagt var frá þessari áskorun formannsins í hádegisfréttum Bylgjunnar var hún fjarlægð af heimasíðunni svo ætla má að ekki hafi öllum KR-ingum fundist hún við hæfi.

Fyrstu tölur úr prófkjörinu verða kynntar annað kvöld klukkan sex en endanleg niðurstaða ætti að liggja fyrir um klukkan tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×