Innlent

Kannar hvort fækka eigi vistmönnum

Kanna á hvort fækka eigi vistmönnum á Sólvangi í fimmtíu og fimm til sextíu á næstu vikum svo draga megi úr þrengslum þar segir Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra.

Tvöfalt kerfi er staðreynd í heilbrigðiskerfinu, þar sem þeir efnameiri geta keypt sér betri þjónustu en hinir efnaminni verða að láta sér lakari þjónustu lynda, sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar, í utandagskrárumræðu á Alþingi síðdegis. Hann sagði þjónustu við aldraða látna drabbast niður og kallaði heilbrigðisráðherra til ábyrgðar. Fréttir af miklum þrengslum á Sólvangi í Hafnarfirði urðu honum tilefni til að spyrja ráðherra hvort hann væri reiðubúinn að hraða almennum endurbótum þar.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagðist hafa fyrirskipað að endurbótum á Sólvangi skyldi hraðað. Hann sagði meðal annars þurfa að skoða hvort fækka þyrfti vistmönnum en bætti við að ekki væri hægt að einblína á Sólvang heldur þyrfti að skoða öldrunarþjónustu í Hafnarfirði frá ýmsum hliðum. Hann vísaði þó á bug gagnrýni stjórnarandstæðinga um að lítið væri gert til að leysa vandann og sagði að útgjöld til málaflokksins hefðu hækkað úr níu milljörðum í fjórtán á skömmum tíma, mörg rými hefðu verið byggð og fleiri væru í byggingu. Þá vísaði hann því á bug að komið væri upp tvöfalt kerfi, eitt fyrir þá sem gætu keypt sér aukaþjónustu og annað fyrir þá sem gætu það ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×