Innlent

Gagnrýnir Valgerði fyrir aðgerðaleysi

"Það verður að efla fjárhag stofnunarinnar núna strax með afgreiðslu fjárlaga og gefa svo tíma til að huga að breytingum," segir Kristinn H. Gunnarsson.
"Það verður að efla fjárhag stofnunarinnar núna strax með afgreiðslu fjárlaga og gefa svo tíma til að huga að breytingum," segir Kristinn H. Gunnarsson.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknar, gagnrýnir Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra og flokkssystur sína, harðlega fyrir aðgerðaleysi í málefnum Byggðastofnunar. Hann segir að ljóst hafi verið um síðustu áramót að stofnunin kynni að þurfa að hætta lánveitingum á árinu vegna lakrar eiginfjárstöðu en að iðnaðarráðherra hafi ekkert gert.

Kristinn H. Gunnarsson segir í pistli á heimasíðu sinni að aðgerðarleysi Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar í heild sinni í málefnum Byggðastofnunar hafi komið sér á óvart. Eigið fé stofnunarinnar hafi farið lækkandi síðustu ár og því hafi verið fyrirsjáanlegt að hætta yrði lánveitingum ef ekkert væri gert í málinu. Annað hvort þyrfti að leggja stofnuninni til fé eða létta af henni skuldum en hvorugt hafi verið lagt til við gerð núverandi fjárlagafrumvarps. Þetta segir Kristinn algerlega óásættanlegt og að á venjulegri íslensku heiti þetta að láta reika á reiðanum.

Kristinn segir yfirlýsingar iðnaðarráðherra um stuðning við Byggðastofnun vera loðnar og svör hennar um hvert skuli stefna enn loðnari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×