Innlent

Vilja ekki gefa upp hvað verður gert við Heilsuverndarstöðina

MYND/E.Ól

Nýir eigendur Heilsuverndarstöðvarinnar vilja ekki gefa upp að svo stöddu hvað standi til að gera við húsið þegar þeir fá það afhent. Þeir borga hátt ímilljarð króna fyrir húsið.

Eitt glæsilegasta hús Reykjavíkur, fasteignin að Barónsstíg 47 þar sem Heilsuverndarstöðin hefur verið til húsa í áratugi, var á dögunum auglýst til sölu, en húsið er í eigu Reykjavíkurborgar og ríkissjóðs. AlLs bárust átta tilboð í húsið en einn bjóðenda féll frá tilboði sínu áður en tekin var afstaða til þesS.

Hæsta boð átti verktakafyrirtækið Mark-Hús, heilar 980 milljónir króna, en það er um 50 milljónum króna meira en næsthæsta tilboð. Tvö hundruð milljónir verða reiddar fram við undirritun kaupssamnings og eftirstöðvarnar, 780 milljónir, þegar húsið verður afhent 1. ágúst á næsta ári. Ríkissjóður, sem á 40 prósent í húsinu, hefur þegar samþykkt tilboðið og hið sama hefur framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar gert. Þá vantar aðeins samþykki borgaráðs en búist er við því að það leggi blessun sína yfir tilboðið á fundi á fimmtudag.

Mark-Hús hefur verið starfandi sem verktakafyrirtæki frá árinu 1982 en eigendur þess eru Markús Árnason og Karen Haraldsdóttir. Þau segja of snemmt að greina frá því hvaða hlutverk þau ætli húsinu enda sé nokkuð langur tími þar til húsið verður afhent. Verið sé að skoða nokkrar hugmyndir en ekki verði greint frá því hverjar þær séu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×