Viðskipti erlent

Indverjar bora eftir olíu í Afríku

Stjórnvöld á Indlandi hafa hug á að verja sem nemur 1 milljarði bandaríkjadala eða rúmum 69 milljörðum íslenskra króna í olíuleit-, vinnslu og námagröft á Fílabeinsströndinni á vesturströnd Afríku á næstu fimm árum.

Með verkefninu mun vera horft til þess að ná í ódýrara eldsneyti úr auðlindum Fílabeinsstrandarinnar til að anna ört vaxandi eftirspurn eftir orkugjöfum á Indlandi.

Amarendra Khatua, sendiherra Indlands á Fílabeinsströndinni, segir Indverja glíma við sama vanda og Kínverjar. Landsmönnum hafi fjölgað mikið í báðum löndunum, efnahagur íbúanna batnað mikið á undanförnum árum og hafi þeir ráðrúm til fjárfestinga. Þá geri þeir miklar kröfur um ódýra og öruggga orkugjafa.

60.000 tunnur af hráolíu eru framleiddar á Fílabeinsströndinni á degi hverjum en Indverjar horfa til þess að auka framleiðsluna enn frekar og hafa varið sem nemur 832 milljónum íslenskra króna til frekari rannsókna. Þá munu tilraunaboranir vera þegar hafnar úti fyrir ströndum landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×