Viðskipti erlent

Google sagt brjóta á blaðaútgefendum

google Belgískir blaðaútgefendur saka Google um að nota efni úr dagblöðum án leyfis.
google Belgískir blaðaútgefendur saka Google um að nota efni úr dagblöðum án leyfis. MYND/AFP

Búist er við að úrskurður liggi fyrir snemma á næsta ári í máli Copiepresse, samtaka frönskumælandi blaðaútgefenda í Belgíu, sem þeir höfðuðu gegn bandaríska netfyrirtækinu Google.

Málið var tekið fyrir í Brussel í Belgíu á föstudag. Dómarinn hafði áður skikkað netfyrirtækið til að fjarlægja alla tengla á vefi belgísku dagblaðanna eða greiða eina milljón evra eða rúmar 92 milljónir íslenskra króna í dagsektir.

Lögfræðingar samtakanna saka Google um að brjóta á höfundarrétti með því að birta fyrirsagnir og brot á fréttum blaðanna ásamt úrdrætti án leyfis. Engu skipti þótt Google vísi á vefi dagblaðanna. Þá hefur fyrirtækið virt að vettugi óskir samtakanna um að fjarlægja efnið af vefsíðunum, að sögn lögfræðinganna.

Málinu svipar til máls frönsku fréttastofunnar AFP, sem sakaði Google um rétthafabrot og krafðist 13,8 milljóna evra eða 1,3 milljarða króna í bætur.

Þá hafa Google og alþjóðlega fréttastofan Associated Press komist að samkomulagi um gjald fyrir birtingu frétta og ljósmynda. Ekki hefur verið gefið upp hversu hátt gjald Google greiðir fyrir afnotin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×