Menning

Rúna sýnir í Hafnarborg

Rúnu Sigrún Guðjónsdóttir sýnir í Hafnarborg.
Rúnu Sigrún Guðjónsdóttir sýnir í Hafnarborg.

Í dag kl. 17 opnar Sigrún Guðjónsdóttir, sem kunn er af listamannsnafni sínu, Rúna, sýningu í Sverrissal og Apóteki í Hafnarborg. Á sýningunni verða steinleirsmyndir og verk unnin á pappír með akrýl, olíukrít, pastel og bleki.

Rúna hefur unnið mikið með japanskan pappír, sem er efnismikill og gljúpur, og því allt annað efni að vinna á en steinleir sem hún hefur haldið tryggð við svo árum skiptir og gert að sínu efni.

Starfsferill Rúnu er orðinn langur og fjölbreytilegur. Allt frá árinu 1950, þegar hún tók að birta svipsterkar teikningar sínar, og til þessa dags hefur hún tekið þátt í ótal sýningum innanlands og utan, lagt stund á myndlistarkennslu, hönnun, bókaskreytingar og skreytingar á byggingum svo nokkuð sé nefnt.

Hún var ásamt manni sínum Gesti Þorgrímssyni einn af frumkvöðlum íslenskrar leirlistar á þeim tíma þegar fáir sinntu leirgerð og er heiðursfélagi Leirlistafélagsins. Saman unnu þau Gestur lengi að leirmunagerð og skreytingum á opinberum byggingum. Rúna tók virkan þátt í félagsstarfi myndlistarmanna og var fyrsti formaður Félags íslenskra myndlistamanna 1981-1985, hún sat í stjórn Norræna myndlistarbandalagsins 1981-1985 og í stjórn Norrænu listamiðstöðvarinnar á Sveaborg 1983-1987. Hafnfirðingar sýndu henni þann sóma að kjósa hana fyrsta bæjarlistamann Hafnarfjarðar 2005 og komu fáir ef nokkrir til greina í fyrsta vali nema hún.

Sýning hennar nú er til marks um hversu lengi listamenn geta haldið áfram störfum, ekki síst þeir sem vinna stöðugt af natni og elju á sínum vettvangi.

Sýningin er opin alla daga nema þriðjudaga frá kl. 11 til 17, á fimmtudögum er opið frá kl. 11 til 21. Sýningin stendur út desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×