Innlent

Fallist á kröfu að­stand­enda

Jónas sést hér við sambærilegan bát og þann sem nú er í löggeymslu.
Jónas sést hér við sambærilegan bát og þann sem nú er í löggeymslu. MYND/GVA

Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur fallist á kröfu aðstandenda Matthildar V. Harðardóttur og Friðriks Á. Hermannssonar, sem létust er skemmtibáturinn Harpa steytti á Skarfaskeri í september í fyrra, um að eignir Jónasar Garðarssonar verði teknar í löggeymslu á grundvelli niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. júní 2006.

Sýslumaðurinn féllst á ábendingu lögmanns aðstandenda um að skemmtibátur Jónasar, sá hinn sami og steytti á Skarfaskeri, yrði í löggeymslu þar til dómur Hæstaréttar liggur fyrir í málinu.

Jónas var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi og fyrir að hafa stýrt bátnum er slysið varð undir áhrifum áfengis. Dómur Jónasar er þyngsti dómur sem fallið hefur hér á landi fyrir brot af þessu tagi.

Óljóst er enn hvenær málið verður tekið fyrir í Hæstarétti en Jónas áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Hæstaréttar er líklegast að málið verði tekið fyrir í mars eða apríl en málið er ekki komið á dagskrá Hæstaréttar.

Jónas neitaði því fyrir dómi að hafa stýrt bátnum er hann steytti á skerinu en fjölskipaður dómur komst að þeirri niðurstöðu að Jónas hefði verið við stýrið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×