Innlent

Hlerunargögn leynileg vegna tillits til erlendra ríkja

Tillitsemi við erlend ríki er ein af ástæðunum fyrir því að dómsmálaráðuneytið treystir sér ekki til að létta af leynd á hlerunargögnum, sem það afhenti þjóðskjalaverði í sumar.

Símhleranir og njósnir hafa orðið viðkvæmt deilumál í samfélaginu eftir uppljóstranir sagnfræðinganna Guðna Th. Jóhannessonar og Þórs Whiteheads. Kröfur um að öll málsatriði verði gerð opinber gerast æ háværari - og þar láta ráðherrar ekki sitt eftir liggja. Forsætisráðherra, menntamálaráðherra og landbúnaðarráðherra hafa allir lýst þeirri skoðun sinni að gögn málsins eigi að vera aðgengileg.

Þjóðskjalavörður hefur neitað að sýna fréttastofunni átján skjöl varðandi hleranirnar, sem dómsmálaráðuneytið afhenti honum í sumar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kæru fréttastofunnar á þeirri synjun til meðferðar og í bréfi til nefndarinnar segir dómsmálaráðuneytið að um sé að ræða 15 skjöl ef frá eru talin samrit, sex sem varða rannsókn í opinberu máli og níu sem varða öryggishagsmuni ríkisins. Telur dómsmálaráðuneytið að það sé ekki í stakk búið til að ákveða að svo stöddu að leynd skuli aflétt af þessum skjölum, ,,sem sum hver varða skipti við önnur ríki", en þann málaflokk annist utanríkisráðuneytið.

Af þessu bréfi að dæma skiptir tillit til erlendra ríkja máli þegar ákveða skal hvort gögn skuli gerð opinber um hlerun íslenskra yfirvalda á símtölum hér innanlands sem ætla má að snerti íslenska ríkisborgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×