Jólin kosta þjóðina átta milljarða króna, fyrir utan virðisaukaskatt, ef spá Rannsóknarseturs verslunarinnar gengur eftir. Átta milljarðar samsvara því að hvert mannsbarn eyði um þrjátíu þúsund krónum, með virðisaukaskatti, í jólin á þessu ári.
Býsna væn summa en samkvæmt spánni sem var kynnt á blaðamannafundi Rannsóknarsetursins og Samtaka verslunar og þjónustu í morgun, er þó gert ráð fyrir að heldur dragi úr þeim vexti sem orðið hefur í jólaverslun síðustu tvö árin. Ekki svo að skilja, það verður samt vöxtur. Í könnun setursins kemur fram að tveir þriðju Íslendinga gera jólainnkaupin ekki fyrr en í desember. Og það er af sem áður var þegar Íslendingar fóru í flugvélaförmum til útlanda í jólagjafaleiðangra því tæp sjötíu prósent landsmanna kaupa allar jólagjafir á Íslandi. Tæp 60% landsmanna hyggjast verja innan við 75 þúsund krónum í jólagjafir.Og það er greinilegt að íslenskar konur vilja vera enn sætari um jólin en á öðrum árstímum því tæp þrjátíu prósent af allri sölu á snyrtivörum fer fram í nóvember og desember.