Viðskipti erlent

Ryanair með fjórðungshlut í Aer Lingus

Ein af vélum Ryanair.
Ein af vélum Ryanair. Mynd/AFP

Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur aukið við hlut sinn í írska innanlandsflugfélaginu Aer Lingus og á nú fjórðung í félaginu. Dermont Mannion, forstjóri Aer Lingus, staðfesti þetta í gær. Ryanair vinnur að óvinveittri yfirtöku á flugfélaginu.

Ryanair átti fyrir 19 prósenta hlut en segist hafa greitt um 88 milljónir evra eða rúma 8 milljarða krónur fyrir hin 6 prósentin.

Bæði stjórn og starfsmenn Aer Lingus, sem einkavætt var í síðasta mánuði, hafa mótmælt yfirtökutilburðum Ryanair allt frá því stjórn lággjaldaflugfélagsins gerði fyrst tilboð í félagið skömmu eftir einkavæðingu.

Mannion segir að aukinn hlutur Ryanair sýni að það sé hins vegar fjarri að Ryanair ætli að hætta við frekari yfirtökutilraunir.

Þá hefur írska ríkið, sem á 28 prósenta hlut í Aer Lingus, sagt frá fyrsta tilboði, að það muni ekki selja hlut sinn.

Tilboð Ryanair hljóðar upp á 1,48 milljarða evrur eða um 135 milljarða íslenskra króna og hefur flugfélagið fram til 8. desember til að hækka það.

Breska ríkisútvarpið segir miklar líkur á að hluthafar Aer Lingus muni fella það á hluthafafundi 4. desember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×