Bæjarstjórnin í smábænum Cherry Tree, í Pennsylvaníu, mun taka ákvörðun um það á miðvkudag, hvort hún biður alla bæjarbúa um að eignast byssur og læra að nota þær. Íbúar í Cherry Tree eru um 400 talsins.
Það var einn íbúanna, Henry Statkowski, sem lagði tillögu þessa efnis fyrir bæjarstjórnina í síðasta mánuði. Í rökstuðningi sínum sagði Statkowski að það væri bæði réttur og skylda húsráðenda að verja heimili sín, frekar en hringja í lögregluna og bíða eftir að hjálp bærist.
Ekki er beinlínis hægt að segja að glæpaalda sé í smábænum. Alvarlegasta afbrotið sem menn muna eftir var þegar Tommy Anderson ók bíl undir áhrifum áfengis og stórskemmdi skyndibitastaðinn í Cherry Tree. Það var árið 1974.