Viðskipti innlent

Promens lýkur kaupum á Polimoon

Promens hf.,  dótturfyrirtæki Atorku hefur fallið frá eftirfarandi skilyrðum í tengslum við kaup fyrirtækisins á Polimoon ASA. Gert er ráð fyrir að kaupunum verði lokið þann 28. desember næstkomandi.

Í tilkynningu frá félaginu segir að þegar tilboðsfrestur rann út síðastliðinn föstudag hafi 99,85 prósent hluthafa samþykkt tilboðið sem hljóðar upp á 35 norskar krónur eða tæpar 387 íslenskar krónur á hlut. Heildarkaupvirði nemur 1.351 milljónum norskra króna eða 14,9 milljörðum íslenskra króna.

Kaupin eru fjármögnuð með eigin fé og breytanlegum lánum sem eru sölutryggð af Atorku hf. og Landsbanka Íslands hf., og með lánsfjármögnum frá DnB NOR.  Auk þess veitir DnB NOR Polimoon yfirdráttarlínu vegna nýrra fyrirtækjakaupa, að því er segir í tilkynningunni.

 

Eftir kaupin verður Promens meðal stærstu iðnfyrirtækja á Íslandi, en að teknu tilliti til fullra áhrifa af fyrirtækjakaupum á árinu er ársvelta fyrirtækisins 720 milljónum evra eða 64,7 milljörðum íslenskra króna.

  

Haft er eftir Ragnhildi Geirsdóttur, forstjóra Promens, að með kaupunum á Polimoon verði fyrirtækið leiðandi fyrirtæki í plastiðnaði. „Við sjáum mikil tækifæri til áframhaldandi vaxtar fyrir sameiginlegt félag, bæði á núverandi mörkuðum og á nýjum mörkuðum. Fyrirtækin eru bæði með traustan rekstur og hafa vaxið mikið, og við ætlum að halda því áfram. Polimoon er mjög vel rekið fyrirtæki og með öflugt stjórnunarteymi,“ segir hún.

 

Promens hyggst reka Polimoon í óbreyttu formi og fylgja eftir núverandi stefnu félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×