Viðskipti innlent

Mikill samdráttur íbúðalána hjá innlánsstofnunum

Nýbygging.
Nýbygging.
Verulegur samdráttur var á milli ára í nóvember í nýjum íbúðalánum innlánsstofnana, eða 77 prósent. Greiningardeild Landsbankans segir samdráttinn á milli ára svipaða frá miðju ári. Ný útlán banka hafi náð hámarki skömmu eftir að þau hófust haustið 2004 og fóru hæst í rúma 34 milljarða króna í október sama ár.

Ný íbúðalán banka og sparisjóða námu 3,8 milljörðum króna í nóvember og jukust óverulega frá fyrri mánuði, að sögn deildarinnar. Fjöldi nýrra útlána var 374 talsins í nóvember, en voru 388 í október. Upphæð og fjöldi nýrra útlána innlánsstofnana hefur lítið breyst frá því í sumar og virðist hafa náð tímabundnu jafnvægi.

Ný íbúðalán Íbúðalánasjóðs drógust saman um fimmtung frá sama mánuði í fyrra og námu 4,7 milljörðum króna. Samdrátturinn er því mun meiri hjá bönkunum og nýju útlánin lægri en hjá Íbúðalánasjóði, að sögn greiningardeildar Landsbankans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×