Jafnir gagnvart Guði? 28. apríl 2007 05:45 Meirihluti presta innan þjóðkirkjunnar hefur hafnað því að gefa saman samkynhneigða. Í forundran spyr maður sjálfan sig hvers vegna þetta gerist á tímum frjálslyndis og umburðarlyndis; á tímum upplýsinga og vitneskju um að samkynhneigð hefur ekkert með perraskap eða ónáttúru að gera. Maður spyr sjálfan sig og samfélagið: hvers konar mismunun og fordómar eru hér á ferðinni? Lærðir guðfræðingar, vígðir menn, sú stétt sem helst og mest ber þungann af sorgum og skipsbrotum samborgaranna á herðum sér; prestar sem þurfa að líkna og hugga, prestarnir sem eiga manna best að skilja og þekkja allt litrófið í mannlífinu, prestarnir sem boða að Kristur gerir ekki upp á milli bræðra okkar og systra, þeir ganga fram fyrir skjöldu í nafni þjóðkirkjunnar og neita að viðurkenna rétt minnihlutahóps í þjóðfélaginu til að ganga í heilagt hjónaband. Af því að þetta fólk er af sama kyni! Hvar erum við stödd? Á miðöldum? Í heimi afturhalds og fordóma og fávísi? Eða er þetta virkilega hluti af því þjóðfélagi sem við búum í, þar sem sumir eru þóknanlegir og aðrir ekki? Eru prestarnir orðnir samgrónir inn í það munstur sem við höfum upplifað í seinni tíð, sumsé að afneita og loka augunum fyrir öðru en því sem er venjulegt og „eðlilegt". Þess sjást svosum merki víðar í samfélaginu. Börn og unglingar með geðræna sjúkdóma eru öðruvísi, afbrigðileg, óþægileg. Þau verða afgangs í kerfinu. Útundan. Aldrað fólk sem ekki fer lengur eins mikið fyrir í þjóðfélaginu og okkur hinum, það er vanrækt í þjónustu, umönnun og í kjörum. Það verður útundan í kerfinu, afgangsstærð í hagvextinum og góðærinu. Það getur beðið, farið aftast í röðina af því að okkur hinum liggur svo mikið á og megum ekki vera að því að sinna þeim. Greiningarmiðstöðin hefur ekki undan þeirri biðröð sem myndast, vegna þess að þeim fer fjölgandi börnunum og unglingunum, sem búa við margs kyns fötlun, líkamlega eða andlega, og þurfa á sérfræðilegri aðstoð að halda. Þau geta beðið. Sjúklingar sem þurfa bráða og sértæka læknisþjónustu verða að láta sér að góðu að mæta afgangi í biðröðunum, biðraðamenningunni allri, sem er auðvitað ekkert annað en afleiðing af firringunni og græðginni allt í kringum okkur. Munstrið, sýndarveruleikinn gengur nefnilega út á það að vera eins og hinir, í lagi, í efnum, á leiðinni á toppinn, í takt við þá draumsýn og tálmynd nútímans, að það megi ekkert út af bregða. Og engum að skjátlast, engum að fatast flugið. Allir að vera flott. Allir að samsvara sig við það besta og fullkomnasta og veikindi, fátækt, elli eða sérþarfir er úr takti við heimsmynd yfirborðsins. Vandamálin verður að fela, ekki tala um þau, horfast ekki í augu við annað en gerviþarfirnar, flottræfilsháttinn og það slétta og fellda. Geðraskanir; ekki tala um þær. Vandræðabörn; afneita þeim. Drykkjusjúklingar; fela þá. Hommar og lesbíur; útskúfa þeim. Fátæklingar; geta sjálfum sér um kennt. Við lifum öll í okkar eigin heimi, hlöðum undir rassinn á okkur sjálfum, berumst á, komum okkur fyrir, teljum peningana sem við eigum og bílana sem við ökum á, hossum okkur í bílífinu og hömpum þeim sem plumma sig í þessum sjúka eltingaleik við glys og veraldlega auðlegð. Í stuttu máli, við þroskum með okkur eigingirni, sérgæsku, ósvífni og kaldrifjaða einbeitni til að koma okkar eigin árum vel fyrir borð. Svífumst einskis í þessum frumskógi þar sem lögmálið er að bjarga sér sjálfum. Skítt með hina. Og í þessum hugsunarhætti, í þessu tryllta andrúmslofti, vex þröngsýnin og tillitsleysið og jafnvel guðsmennirnir sjálfir, boðberar fyrirgefningar og skilnings, falla í þá aumkunarverðu gryfju að missa sjónar á því grundvallaratriði að ást og kærleikur fer ekki í manngreinarálit eftir kyni eða hormónum. Samkynhneigt fólk er jafn velkomið og frambærilegt og hver annar, það á sinn rétt og sína trú og hefur sína kynhneigð frá náttúrunni og skaparanum eins og ég og þú og allir prestarnir sjálfir, ef út í það er farið. Höfnun meirihluta prestastéttarinnar er á ábyrgð þjóðkirkjunnar. Hinnar lúthersk evangelisku kirkju sem sækir sína stöðu í sjálfa stjórnarskrána og styrk sinn í guðrækni og kristna trú. Mér þykir vænt um hana. En ég fyrirlít og fordæmi bókstafskenningu, sem gengur erinda ranglætis og ójafnaðar. Nóg er nú samt af misréttinu, þótt kirkjan sjálf taki ekki undir það að við séum ekki öll á sama báti gagnvart Guði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ellert B. Schram Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Styrkjum stöðu sjúkraliða fyrir betri heilbrigðisþjónustu Sandra B. Franks Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sterk sveitarfélög skipta máli Heiða Björg Hilmisdóttir Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Meirihluti presta innan þjóðkirkjunnar hefur hafnað því að gefa saman samkynhneigða. Í forundran spyr maður sjálfan sig hvers vegna þetta gerist á tímum frjálslyndis og umburðarlyndis; á tímum upplýsinga og vitneskju um að samkynhneigð hefur ekkert með perraskap eða ónáttúru að gera. Maður spyr sjálfan sig og samfélagið: hvers konar mismunun og fordómar eru hér á ferðinni? Lærðir guðfræðingar, vígðir menn, sú stétt sem helst og mest ber þungann af sorgum og skipsbrotum samborgaranna á herðum sér; prestar sem þurfa að líkna og hugga, prestarnir sem eiga manna best að skilja og þekkja allt litrófið í mannlífinu, prestarnir sem boða að Kristur gerir ekki upp á milli bræðra okkar og systra, þeir ganga fram fyrir skjöldu í nafni þjóðkirkjunnar og neita að viðurkenna rétt minnihlutahóps í þjóðfélaginu til að ganga í heilagt hjónaband. Af því að þetta fólk er af sama kyni! Hvar erum við stödd? Á miðöldum? Í heimi afturhalds og fordóma og fávísi? Eða er þetta virkilega hluti af því þjóðfélagi sem við búum í, þar sem sumir eru þóknanlegir og aðrir ekki? Eru prestarnir orðnir samgrónir inn í það munstur sem við höfum upplifað í seinni tíð, sumsé að afneita og loka augunum fyrir öðru en því sem er venjulegt og „eðlilegt". Þess sjást svosum merki víðar í samfélaginu. Börn og unglingar með geðræna sjúkdóma eru öðruvísi, afbrigðileg, óþægileg. Þau verða afgangs í kerfinu. Útundan. Aldrað fólk sem ekki fer lengur eins mikið fyrir í þjóðfélaginu og okkur hinum, það er vanrækt í þjónustu, umönnun og í kjörum. Það verður útundan í kerfinu, afgangsstærð í hagvextinum og góðærinu. Það getur beðið, farið aftast í röðina af því að okkur hinum liggur svo mikið á og megum ekki vera að því að sinna þeim. Greiningarmiðstöðin hefur ekki undan þeirri biðröð sem myndast, vegna þess að þeim fer fjölgandi börnunum og unglingunum, sem búa við margs kyns fötlun, líkamlega eða andlega, og þurfa á sérfræðilegri aðstoð að halda. Þau geta beðið. Sjúklingar sem þurfa bráða og sértæka læknisþjónustu verða að láta sér að góðu að mæta afgangi í biðröðunum, biðraðamenningunni allri, sem er auðvitað ekkert annað en afleiðing af firringunni og græðginni allt í kringum okkur. Munstrið, sýndarveruleikinn gengur nefnilega út á það að vera eins og hinir, í lagi, í efnum, á leiðinni á toppinn, í takt við þá draumsýn og tálmynd nútímans, að það megi ekkert út af bregða. Og engum að skjátlast, engum að fatast flugið. Allir að vera flott. Allir að samsvara sig við það besta og fullkomnasta og veikindi, fátækt, elli eða sérþarfir er úr takti við heimsmynd yfirborðsins. Vandamálin verður að fela, ekki tala um þau, horfast ekki í augu við annað en gerviþarfirnar, flottræfilsháttinn og það slétta og fellda. Geðraskanir; ekki tala um þær. Vandræðabörn; afneita þeim. Drykkjusjúklingar; fela þá. Hommar og lesbíur; útskúfa þeim. Fátæklingar; geta sjálfum sér um kennt. Við lifum öll í okkar eigin heimi, hlöðum undir rassinn á okkur sjálfum, berumst á, komum okkur fyrir, teljum peningana sem við eigum og bílana sem við ökum á, hossum okkur í bílífinu og hömpum þeim sem plumma sig í þessum sjúka eltingaleik við glys og veraldlega auðlegð. Í stuttu máli, við þroskum með okkur eigingirni, sérgæsku, ósvífni og kaldrifjaða einbeitni til að koma okkar eigin árum vel fyrir borð. Svífumst einskis í þessum frumskógi þar sem lögmálið er að bjarga sér sjálfum. Skítt með hina. Og í þessum hugsunarhætti, í þessu tryllta andrúmslofti, vex þröngsýnin og tillitsleysið og jafnvel guðsmennirnir sjálfir, boðberar fyrirgefningar og skilnings, falla í þá aumkunarverðu gryfju að missa sjónar á því grundvallaratriði að ást og kærleikur fer ekki í manngreinarálit eftir kyni eða hormónum. Samkynhneigt fólk er jafn velkomið og frambærilegt og hver annar, það á sinn rétt og sína trú og hefur sína kynhneigð frá náttúrunni og skaparanum eins og ég og þú og allir prestarnir sjálfir, ef út í það er farið. Höfnun meirihluta prestastéttarinnar er á ábyrgð þjóðkirkjunnar. Hinnar lúthersk evangelisku kirkju sem sækir sína stöðu í sjálfa stjórnarskrána og styrk sinn í guðrækni og kristna trú. Mér þykir vænt um hana. En ég fyrirlít og fordæmi bókstafskenningu, sem gengur erinda ranglætis og ójafnaðar. Nóg er nú samt af misréttinu, þótt kirkjan sjálf taki ekki undir það að við séum ekki öll á sama báti gagnvart Guði.