Handbolti

Á námskeiði hjá Tommy Svensson

Húsvíkingurinn Pálmar Pétursson heldur á sunnudag til Svíþjóðar ásamt Björgvini Páli Gústavssyni þar sem þeir munu sækja markvarðanámskeið hjá Tommy Svensson og Claes Hellgren.
Húsvíkingurinn Pálmar Pétursson heldur á sunnudag til Svíþjóðar ásamt Björgvini Páli Gústavssyni þar sem þeir munu sækja markvarðanámskeið hjá Tommy Svensson og Claes Hellgren. fréttablaðið/vilhelm

Tveir efnilegustu markverðir landsins, Pálmar Pétursson úr Val og Björgvin Páll Gústavsson úr Fram, fara á sunnudaginn til Svíþjóðar þar sem þeir verða á vikulöngu markvarðanámskeiði hjá sænsku markvarðagoðsögnunum Tommy Svensson og Claes Hellgren.

Um er að ræða eftirsótt námskeið sem aðeins tólf markverðir fá að taka þátt í hverju sinni og komast færri að en vilja. Þetta er í fyrsta skipti sem HSÍ kemst með markverði inn á þetta námskeið en sambandið naut aðstoðar Andrésar Kristjánssonar, handboltaþjálfara hjá GUIF.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu námskeiði og maður lærir væntanlega eitthvað af þessum snillingum. Þetta er líka frábært framtak hjá HSÍ og einstakt tækifæri," sagði Pálmar við Fréttablaðið í gær en það var ekki ljóst að þeir félagar kæmust á námskeiðið fyrr en á þriðjudag. Fyrir vikið hafa strákarnir þurft að breyta sumarfríum og öðru á skömmum tíma en það hafðist að lokum.

„Það er gott að vita að HSÍ viti af manni og valið gefur til kynna að maður eigi möguleika á að komast í landsliðið eins og ég hef stefnt að. Ég verð samt ekki ánægður fyrr en ég verð valinn," sagði Pálmar en þess má geta að Pálmar og Björgvin voru markvarðateymi landsliðsins sem varð Evrópumeistari U-18 árið 2003. - hbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×