Menning

Sýnt í Innréttingum

Fuglar eftir Margréti Þórarinsdóttur.
Fuglar eftir Margréti Þórarinsdóttur.

Handverk og hönnun hefur nú haft aðsetur í nýuppgerðu húsi Innréttinganna í Aðalstræti 10 í Reykjavík um nokkurt skeið. Á fimmtudag var þar opnuð ný sýning á vegum samtakanna. Hún kallast Á skörinni. Þar sýna Margrét Þórarinsdóttir handgerða fugla, Snjólaug Sigurjónsdóttir sýnir útsaumaðar myndir og Fitjakot sýnir púða.

Margrét hefur búið til fugla í hátt í tuttugu ár og fengist við ýmist annað handverk. „Frá fjöru til fjalls“ kallar Margrét fuglasýninguna. Útsaumurinn er henni mjög hjartfólginn, þar leikur hún sér með liti, form og áferð og má segja að Snjólaug sé að reyna að mála með nálinni. Á sýningunni „Á skörinni“ sýnir hún myndaröð sem kallast „Hjartans mál“.

Okkar margbreytilegu tilfinningar eru tengdar við hjartað og er Snjólaug í myndum sínum að túlka þær í litum, formi, efni og áferð. Guðrún Hannele Henttinen og Rannveig Helgadóttir vinna saman undir nafninu Fitjakot. Á sýningu Fitjakots verða púðar með hinum mörgu andlitum Fridu Kahlo. Kveikjan er hið sterka og litríka myndmál listakonunnar sem málaði m.a. margar sjálfsmyndir. Púðar hafa það hlutverk að vera til þæginda en ekki síður augnayndi. Sýningin stendur til 2. ágúst 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×