Viðskipti erlent

Journal rennur Murdoch úr greipum

Rupert Murdoch
Rupert Murdoch

Ólíklegt þykir að News Corp, fyrirtæki ástralska fjölmiðla­mógúlsins Ruperts Murdoch, geti yfirtekið bandaríska fjölmiðlafyrirtækið Dow Jones, sem meðal annars gefur út hið víðfræga viðskiptatímarit Wall Street Journal.



Bancroft-fjölskyldan sem á 64 prósenta hlut í Dow Jones, er sögð hafa horn í síðu Murdochs, og vill heldur að félagið komist í hendur þóknanlegri manna. Brad Greenspan, stofnandi MySpace-tengslanetsins, hefur lýst því yfir að hann hafi áhuga á að komast yfir ráðandi hluta í Dow Jones.

Viðræður milli Dow Jones og News Corp hafa nú staðið í nokkrar vikur, og hafði stjórn Dow Jones lagt blessun sína yfir hugsanlega yfirtöku á félaginu. Nú virðist hins vegar hafa komið babb í bátinn.

Rupert Murdoch hefur lýst því yfir að ritstjórnarlegt sjálfstæði Wall Street Journal verði tryggt komist hann yfir ráðandi hlut í News Corp. Murdoch hefur legið undir ámæli fyrir að skipta sér um of af efnistökum fjölmiðla sinna; þá sérstaklega bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar Fox, sem raunar er sú bandaríska fréttastöð sem hefur mest áhorf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×