Erlent

Getur gosið á hverri stundu

Vísindamenn hafa fundið tvö gömul rekbelti og eldfjall á hafsbotni á Reykjaneshrygg sem er hið eina sinnar tegundar í heiminum. Þessar merku uppgötvanir eru niðurstöður rannsóknar­leiðangurs sem fræðimenn frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Hawaii héldu í í sumar á rannsóknarskipinu Knorr.

„Þetta hefur fyrst og fremst mikla fræðilega þýðingu og hjálpar okkur að skilja jarðsögu Íslands,“ segir Ármann Höskulds­son eld­fjallafræðingur og einn leiðangurs­mannanna. Hann segir að ekki hafi verið vitað um tilvist rekbeltanna og eldstöðvarinnar áður þar sem svæðið hafi aldrei verið skoðað með þessari nákvæmni.

Eldfjallið sem leiðangursmenn­irnir fundu hefur hlotið nafnið Njörður. Eldstöðin er engin smá­smíð því fjallið rís um 1.100 metra upp af hafsbotni.

„Við þekkjum sambærileg eldfjöll á landi en svona stórt eldfjall á rekás úti í sjó þekkist ekki. Það vissi enginn að þetta væri til,“ segir Ármann sem segir að fjallið geti gosið hvenær sem er.

„Það mun gjósa þarna. Þessi askja hefur myndast í stóru gosi en það er óvíst hvort svo stórt gos verði þarna aftur,“ segir Ármann sem býst við að fleira eigi eftir að koma í ljós þegar svæðið verður kannað frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×