Fótbolti

Aðeins fimm heimavellir í A-deildinni standast kröfur

Roma og Lazio eru tvö af aðeins nokkrum félögum á Ítalíu sem ekki eru með hjartað í buxunum yfir fyrirhuguðum breytingum á öryggisreglum
Roma og Lazio eru tvö af aðeins nokkrum félögum á Ítalíu sem ekki eru með hjartað í buxunum yfir fyrirhuguðum breytingum á öryggisreglum NordicPhotos/GettyImages

Aðeins fimm leikvangar í A deildinni á Ítalíu eru sagðir standast hertar öryggiskröfur sem tilkynntar verða þar í landi í dag í kjölfar harmleiksins á leik Catania og Palermo á dögunum. Þetta eru Ólympíuleikvangurinn í Róm, heimavöllur Roma og Lazio, Ólympíuleikvangurinn í Tórínó, heimavöllur Juventus og Torino, Renzo Berbera (Palermo), Luigi Ferraris (Sampdoria) og San Filippo (Messina).

Útlit er fyrir að nokkur félög í ítölsku deildinni þurfi að leggja til gríðarlega vinnu til að koma leikvöngum sínum í rétta staðla og hafa forráðamenn Mílanó-liðanna AC og Inter tilkynnt að framkvæmdir muni taka langt fram á næsta ár.

Allt eins er reiknað með því að þau lið sem ekki standast staðla knattspyrnusambandsins muni þurfa að leika fyrir luktum dyrum og því liggur í augum uppi að þessar aðgerðir munu hafa mjög slæm áhrif á rekstur félaganna.

Talsmenn þeirra félaga sem verst koma út úr þessum ráðstöfunum líkja vinnubrögðum sambandsins við vinnubrögð fasista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×