Hnefaleikakappinn Lennox Lewis, fyrrum heimsmeistari í þungavigt, er sagður vera að hugsa um að snúa aftur í hringinn á þessu ári, 41 árs að aldri. Aðilar innan hnefaleikahreyfingarinnar í Bandaríkjunum segja Lennox vera byrjaðan að æfa af fullum krafti fyrir bardaga sem fara skal fram síðar á þessu ári – gegn Vitali Klitschko frá Úkraínu.
“Það hefur verið rætt við Lennox um einn lokabardaga til viðbótar, gegn Klitschko. Mér skilst að Lennox sé byrjaður að mæta daglega í æfingasalinn. Það er stórkostlegur bardagi í burðarliðnum,” sagði Bob Arum, hnefaleikaskipuleggjandi í Bandaríkjunum, í samtali við Daily Mail í Bretlandi.
Lennox lagði hanskana endanlega á hilluna, að eigin sögn, fyrir þremur árum síðan. Hans síðasti bardagi var gegn Klitschko í júní 2003, þar sem sá breski fór einmitt með sigur af hólmi og tryggði sér heimsmeistaratitilinn í þungavigt.