Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins mætti til yfirheyrslu í Baugsmálinu í morgun. Kjartan var spurður út í ráð sem hann gaf Styrmi Gunnarssyni ritstjóra Morgunblaðsins varðandi lögmann sem Jón Gerald Sullenberger gæti leitað til í aðdraganda málsins.
Fram hefur komið í yfirheyrslum yfir Styrmi að Kjartan hafi mælt með Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttalögmanni. Vitnaleiðslan yfir Kjartani stóð stutt yfir, en yfirlýsing var lögð fram vegna þátt hans í málinu.
Næst var Ármann Þorvaldsson forstjóri banka Kaupþings í Bretlandi spurður út í söluþóknun sem Baugur fékk vegna sölu á bréfum í Baugi.
Guðný Arna Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Kaupþings, var næst í vitnastúku. Hún var spurð út í þegar Kaupþing var beðið að finna gögn vegna söluþóknunarinnar. Í símtali við Jón HB Snorrason, fyrrverandi yfirmann efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, sagði Guðný Arna að tiltekin gögn hefðu ekki fundist. Hún sagðist hafa heyrt í lok samtalsins að ánægja var með þá niðurstöðu á skrifstofu efnahagsbrotadeildarinnar.
Nú er verið að yfirheyra Vigni Rafn Gíslason, löggiltan endurskoðanda Pricewater-houseCooper. Verjendur fengu hann til að fara yfir ýmis gögn, rannsókn og vinnbrögð ríkislögreglustjóra. Vignir Rafn verður í vitnastúku fram að hádegi.
Eftir hádegi mæta síðan meðal annarra Jón Ásgeir Jóhannesson og sambýliskona hans, Ingibjörg Pálmadóttir.