Innlent

Sýknaði mann af þjófnaði vegna vankanta á skýrslutöku

MYND/E.Ól
Hæstiréttur sýknaði í dag karlmann af ákæru um að hafa brotist inn í Skíðaskálann í Hveradölum í félagi við konu og haft þaðan á brott peninga, hitakönnu og matvæli. Maðurinn neitaði sakargiftum fyrir dómi og bar við minnisleysi.

Sagði hann lögreglu hafa lagt sér orð í munn í skýrslu sem hún tók af honum. Konan kom ekki fyrir dóm til skýrslugjafar um aðild mannsins að meintu broti þeirra og þá voru lögreglumaðurinn sem tók skýrsluna af manninum og lögreglumaður sem skráður var vottur að henni ekki heldur yfirheyrðir um hvernig skýrslutökunni var háttað þrátt fyrir að fullt tilefni hefði verið til þess í ljósi framburðar mannsins um gang yfirheyrslunnar.

Taldi Hæstiréttur því ekki unnt að byggja málið á framburði mannins og konunnar fyrir lögreglu. Þar sem maðurinn neitaði sök taldi dómurinn að ekki hefði komið fram lögfull sönnun þess að hann hefði gerst sekur um þjófnaðinn. Með þessu sneri Hæstiréttur dómi Héraðsdóms Suðurlands sem dæmt hafði manninn í fjögurra mánaða fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×