Innlent

Sakfelldur fyrir árás á lögreglumenn

MYND/Ingólfur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í fjögurra mánaða fangelsi, þar af þrjá skilorðsbundna, fyrir að hafa veist að tveimur lögreglumönnum sem hugðust handtaka hann. Var manninum gefið að sök að hafa sparkað í handlegg annars lögreglumannsins og kýlt hinn í andlitið þannig að hann hlaut mar og yfirborðsáverka í andlit.

Atvikið átti sér stað haustið 2005 en þá stöðvaði lögregla manninn vegna gruns um að hann hefði ekið undir áhrifum örvandi lyfja. Kom til ryskinga sem endaði með því að maðurinn var handtekinn.

Fyrir dómi neitað maðurinn sök og sagði að þvert á móti hefði annar lögreglumaðurinn kýlt hann. Vitnisburður beggja lögreglumannanna var hins vegar metinn eindreginn og samhljóða á hinn veginn og þótti með stuðningi læknisskýrslu sannað að maðurinn hefði ráðist á lögreglumennina. Þótti í ljósi sakaferils mannsins rétt að dæma hann í fjögurra mánaða fangelsi en þrír mánaðanna eru skilorðsbundnir til þriggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×