Jón Ásgeir Jóhannesson afhenti lögreglu í maí 2003 þrjár möppur með upplýsingum um bankareikninga Nordica. Þær áttu að renna stoðum undir framburð hans og Tryggva Jónssonar varðandi peningafjárhæðir sem runnu frá Baugi til Nordica.
Gestur Jónsson gagnrýndi harðlega í Héraðsdómi í dag að þær hafi ekki verið rannsakaðar af lögreglu. Og að engin heildstæð rannsókn hafi farið fram á bókhaldi Nordica.
Jón Ásgeir hefur haldið því fram að greiðslurnar hafi að mestu runnið til einkareksturs Jóns Geralds Sullenberger. En ekki til að fjármagna eignarhlutdeild og rekstur skemmtibátsins Thee Viking.
Framburður Jóns Geralds um að greiðslurnar hafi verið vegna skemmtibátanna, hefði verið tekinn góður og gildur.
Beiðni Jóns Ásgeirs um rannsókn á þessum gögnum hafi ekki verið tekin til greina. Þrátt fyrir að rannsaka ætti bæði það sem horfði til sektar og sýknu í málinu. Það hljóti að vera einsdæmi hjá lögrelgunni.
Gagnanna var aflað við málarekstur Baugs Group gegn Nordica í Bandaríkjunum.
Gestur sagði að greiðslurnar hafi verið fyrir vinnu Jóns Geralds og Nordica fyrir Baug í Bandaríkjunum. Jón Gerald sinnti verkefnum sem féllu undir lýsingu á þeim texta sem getið er í reikningunum í ákæruliðnum.
Sams konar reikningar liggja fyrir í samskiptum Baugs við annað fyrirtæki í Danmörku, Simons Agentur. Bæði fyrirtækin hefðu sinnt ýmiss konar þjónustu fyrir Baug, meðal annars að finna vörur fyrir verslanir Baugs.
Sú fullyrðing saksóknara að reikningarnir gætu ekki verið annað en greiðsla vegna bátsins væri því mjög ógætileg. Hann bætti svo við að enginn sönnunarfærsla hefði farið fram um að Gaumur ætti bátinn.
Þá benti Gestur ennfremur á að Tryggvi og Jón Ásgeir hefðu frá upphafi rannsóknar sagt að reikningarnir hefðu verið vegna mánaðarlegra greiðslu til Nordica. Þeir hefðu efnislega staðfest þetta fyrir dómi nú og því væri alrangt að halda því fram að þeir væru margsaga varðandi þennan ákærulið.
Gestur sagði einnig að PricewaterhouseCooper hefði að beiðni sinni kannað þessi gögn á seinni hluta árs 2005. Fyrirtækið hefði komist að þeirri niðurstöðu að mjög erfitt væri að fullyrða að innborganir Baugs til Nordica hefðu verið notaðar til að greiða fyrir bátinn. Greining fyrirtækisins leiddi frekar til þeirrar niðurstöðu að greiðslurnar hefðu runnið til Jóns Geralds.
Gestur heldur málflutningi sínum áfram til klukkan þrjú en þá tekur Brynjar Níelsson verjandi Jóns Geralds við. Reiknað er með að hann tali í klukkutíma áður en andsvör saksóknara og lögmanna taki við. Ólíklegt má telja að málinu ljúki í dag fyrr en á sjötta tímanum.