Fótbolti

Inter setur stefnuna á 100 stig

Inter hefur verið á ótrúlegri sigurgöngu á Ítalíu í kjölfar skandalsins fræga
Inter hefur verið á ótrúlegri sigurgöngu á Ítalíu í kjölfar skandalsins fræga NordicPhotos/GettyImages

Inter Milan hefur 20 stiga forystu á toppi ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu og ekkert nema stórslys getur komið í veg fyrir að liðið lyfti bikarnum á ný. Varnarmaðurinn Marco Materazzi segir liðið setja stefnuna á nýtt met í deildinni - 100 stig og ekkert tap.

Eftir 2-0 sigur á Parma í gær er ljóst að Inter hefur 20 stiga forystu í deildinni og hefur það hlotið 79 stig með 25 sigrum, 4 jafnteflum og engu tapi. "Það væri sterk yfirlýsing fyrir fólkið sem gerði grín að okkur hér áður að fara taplausir í gegn um leiktíðina og ná 100 stigum," sagði varnarmaðurinn.

"100 stig eru vissulega háleitt markmið, en ég held að efniviðurinn og hugarfarið sé til staðar," sagði Mancini þjálfari liðsins. Til að ná þessum einstaka árangri þarf Inter helst að vinna Siena, Messina og Atalanta á útivelli og Palermo, Roma, Empoli, Lazio og Torono á heimavelli í þeim leikjum sem eftir eru í deildinni.

Aðeins tvö lið hafa náð að fara taplaus í gegn um leiktíð í A-deildinni í sögunni. Það voru ofurlið Fabio Capello hjá AC Milan leiktíðina 1991-92 og Öskubuskulið Perugia leiktíðina 1978-79. Milan liðið gerði 12 jafntefli á sínum tíma og Perugia 19, en þá fengust aðeins 2 stig fyrir sigur í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×