Menning

Sígilt sultubrauð fáanlegt að nýju

Hjá Vöku-Helgafelli er komin út að nýju bókin Franskbrauð með sultu eftir Kristínu Steinsdóttur með myndum eftir Brian Pilkington. Tuttugu ár eru síðan bókin kom fyrst út en fyrir hana hlaut Kristín Íslensku barnabókaverðlaunin vorið 1987.

Lilla er nýorðin tíu ára og ætlar að dvelja sumarlangt hjá ömmu sinni og afa í litlum kaupstað austur á fjörðum. Í fyrstu er hún feimin og vondauf um að sumarið verði skemmtilegt en annað kemur á daginn. Fljótlega eignast hún fjölda vina og dregst inn í leiki og ævintýri krakkanna í þorpinu.

Í þessari skemmtilegu sögu flytur Kristín Steinsdóttir lesendur sína inn í fjörugt kaupstaðarlíf sumarið 1955 þegar Tarzan er sýndur í þrjúbíó og síldin ræður lögum og lofum.

Franskbrauð með sultu var fyrsta barnabók Kristínar Steinsdóttur sem síðan hefur sent frá sér fjölmargar bækur fyrir alla aldurshópa. Fyrir bók sína Engill í vesturbænum hlaut hún Norrænu barnabókaverðlaunin, Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin og Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×