Fótbolti

Draumamark Leo Messi tilþrif ársins? (myndband)

Argentínumaðurinn Leo Messi hjá Barcelona fór hamförum í leik liðsins gegn Getafe í spænska Konungsbikarnum í kvöld. Hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt, en annað markið hans er trúlega mark ársins. Tilþrif hans minntu óneitanlega á tilþrif landa hans Diego Maradona gegn Englendingum á HM 1986, en það er almennt talið fallegasta mark allra tíma. Hinn 19 ára gamli Messi hefur oft verið nefndur hinn nýi Maradona og á þessum tilþrifum má glöggt sjá af hverju.

Þetta var fyrri leikur Barcelona og Getafe í undanúrsitum spænska konungsbikarsins og hafði Barcelona sigur 5-2. Félagar Messi í Barcelona settu hendur á höfuð sér þegar þeir horfðu upp á tilþrif hans sem sjást hér í myndbandinu, enda ekki á hverjum degi sem menn skora slík draumamörk. Þá er bara að vita hvort lesendur Vísis eru sammála. Smelltu hér fyrir neðan og segðu þína skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×