Körfubolti

Detroit lúskraði aftur á Chicago

Leikmenn Chicago Bulls voru niðurdregnir í nótt eftir flenginguna í Detroit
Leikmenn Chicago Bulls voru niðurdregnir í nótt eftir flenginguna í Detroit NordicPhotos/GettyImages

Detroit er komið með 2-0 forystu gegn Chicago Bulls í einvígi liðanna í undanúrslitum Austurdeildarinnar í NBA eftir annan stóran sigur í í nótt 108-87. Varnarleikur Detroit var ógnarsterkur og Chicago sá aldrei til sólar eftir að hafa lent undir 34-18 strax í fyrsta leikhluta. Detroit vann fyrstu tvo leikina á heimavelli sínum en næstu tveir fara fram í Chicago.

Tayshaun Prince skoraði 25 stig fyrir Detroit, Rip Hamilton skoraði 24 stig og hirti 9 fráköst, Chris Webber skoraði 22 stig og Chauncey Billups skoraði 14 stig og gaf 10 stoðsendingar.

Tyrus Thomas var stigahæstur hjá Chicago með 18 stig af bekknum, Luol Deng skoraði 16 stig og þeir Ben Gordon og Ben Wallace skoruðu 13 stig hvor. Chicago-liðið var einfaldlega yfirspilað á öllum sviðum leiksins eins og í fyrstu viðureigninni og engu líkara en liðið hafi ekið á vegg í Detroit eftir að það sópaði Miami út í fyrstu umferðinni.

"Þeir rassskelltu okkur í báðum leikjunum - strax frá uppkastinu í byrjun leiks og það kom mér á óvart hvað mínir menn voru slappir," sagði Scott Skiles þjálfari Chicago, sem þarf greinilega að lesa hressilega yfir sínum mönnum fyrir næsta leik. Detroit hefur ráðið ferðinni frá a til ö í einvíginu til þessa, en hörmulegur leikur Chicago-liðsins skrifast þó ekki alfarið á góðan varnarleik hjá Detroit. Bloggari nokkur í Bandaríkjunum orðaði það líklega best þegar hann skrifaði; "Detroit-liðið er að leika Ike og Chicago er Tina Turner."

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×