Ákveðið hefur verið að Haraldur Sverrisson taki við af Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ í sumar þegar Ragnheiður heldur til starfa á Alþingi.
Ragnheiður sagði í samtali við fréttastofu að gengið hefði verið frá þessu en sjálfstæðismenn eru í meirihlutasamstarfi við vinstri græna í Mosfellsbæ.
Ragnheiður náði kjöri á Alþingi sem sjötti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi en það er sterkasta vígi flokksins á landsvísu. Hún hefur verið bæjarstjóri í Mosfellsbæ frá árinu 2002.
Haraldur Sverrisson var annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2006 og hefur bæði setið í bæjarstjórn og bæjarráði fyrir flokkinn, í því síðarnefnda sem formaður.