Viðskipti innlent

Stilla býður metverð fyrir Vinnslustöðina

Stilla ehf., félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims, og Hjálmars Kristjánssonar, hefur ákveðið að leggja fram samkeppnistilboð í allt hlutafé Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Tilboðið er til höfuðs yfirtökutilboði Eyjamanna í byrjun maí. Félög tengd Stillu eiga 25,79 prósent af hlutafé Vinnslustöðvarinnar en markmiðið er að eignast það allt.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að tilboðið sé gert af hálfu óstofnaðs eignarhaldsfélags í eigu Stillu ehf.

Tilboðsverðið nemur 8,5 krónum á hlut og er 85 prósentum hærra en tilboð Eyjamanna. Þetta er jafnframt hæsta verð sem boðið hefur verið í hlutabréf Vinnslustöðvarinnar.

Í tilkynningunni segir að það sé mat Stillu að tilboðið endurspegli sanngjarnt raunvirði félagsins í dag þegar tekið er tillit til afkomu og eigna félagsins svo og verðlagningu sambærilegra félaga í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum misserum. Sé tilboð Eyjamanna of lágt og sé fjarri því að það endurspegli sanngjarnt mat á virði félagsins.

Þá segir að Stilla fyrirhugi sömu áherslur og verið hafi í starfsemi félagsins eftir yfirtökuna og telji félagið ákjósanlegt að reka öflugt sjávarútvegsfyrirtæki í Vestmannaeyjum enda séu þar kjöraðstæður fyrir

slíka starfsemi.

Þá er Stilla ósammála Eyjamönnum að afskrá félagið úr Kauphöllinni og hyggur á áframhaldandi skráningu þess.

Tilkynning Stillu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×