Viðskipti innlent

Vísitala neysluverðs ekki lægri í rúmt ár

Samræmd vísitala neysluverðs hækkaði um 0,3 prósent innan EES-ríkjanna á milli mánaða í maí. Hækkunin hér á landi nemur á sama tíma 1,0 prósenti. Tólf mánaða breyting vísitölunnar mælist 2,1 prósent í EES-ríkjunum en 4,0 prósent hér á landi. Vísitalan hefur ekki verið lægri síðan í apríl í fyrra.

Greiningardeild Kaupþings segir í Hálffimmfréttum sínum í dag að hratt hafi dregið úr tólf mánaða hækkun verðbólgunnar hér á landi sem meðal annars megi rekja til áhrifa matarskattslækkana og styrkingar krónunnar. Þá hafi verið verðbólguskot hér á landi á sama tíma í fyrra í kjölfar gengisveikingar krónunnar sem komi inn í tólf mánaða breytingu vísitölunnar.

Greiningardeildin segir að samanburður við EES-ríkin leiði í ljós að þó að flestir þættir hafi hækkað meira á Íslandi hafa nokkrir liðir hækkað minna á milli ára. Tólf mánaða hækkun á mat- og drykkjarvörum hafi verið meiri í EES-ríkjunum. Einnig hafi ferðir og flutningar hækkað meira á síðustu tólf mánuðum í EES-ríkjunum eða um 1,7 prósent á meðan breytingin nemi einungis 0,2 prósentum hér á landi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×