Erlent

Dularfullur hryggur rannsakaður

Annað köfunarvélmennið sem notast verður við.
Annað köfunarvélmennið sem notast verður við. MYND/ap

Bandarískir vísindamenn leggja á næstu dögum af stað í 40 daga rannsóknarleiðangur norður á boginn að hinum leyndardómsfulla Gakkel-hrygg. Hryggurinn er staðsettur neðan sjávar milli Grænlands og Síberíu, þar sem Norður-Ameríku-, og Evrópuflekarnir skiljast að. Svæðið vakti athygli eftir að kunnugt varð um mikla uppsprettu heits vatns þar. Margir telja að á þessum afskektu slóðum sé auðugt og sérstakt lífríki að finna sem þróast hafi einangrað umhverfis hverina í aldanna rás. Þetta kemur fram á vef CNN.

Tim Shank, yfirlíffræðingur verkefnisins, segir engar haldbærar hugmyndir vera um lífríkið á þessum slóðum. „Þetta er eins og að fara til Ástralíu í fyrsta sinn og vita ekki hvaða skepnur bíða manns", segir Tim.

Til rannsóknanna er föruneytið búið tveimur vélmennum sem hönnuð eru af Nasa. Ætlunin er að vélmennin, sem heita Puma og Jaguar, kafi og kortleggi hrygginn og safni lífsýnum umhverfis hverina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×