Fótbolti

Hvetur Eið til að leita á önnur mið

Yfirmaður knattspyrnudeildar hjá Barcelona hvetur Eið Smára Guðjohnsen til að leita á önnur mið. Hann segir ákvörðun Eiðs um að vera áfram hjá félaginu, slæma ákvörðun.

Txiki Beguiristain er skiptstjórinn í brúnni þegar kemur að knattspyrnuhlutanum hjá Barcelona og hefur valdið þegar kemur að leikmannakaupum hjá félaginu. Begiristain sagði í viðtali við spænska fjölmiðla í gær og er haft eftir honum í breska dagblaðinu Guardian í dag að félagið geri ekki ráð fyrir að Eiður fái að leika nokkuð að ráði með liðinu í vetur. Nefnir hann því til stuðnings komu franska markahróksins Thierry Henry frá Arsenal auk þess sem tveir ungir sóknarmenn hafa verið að blómstra á undirbúningstímabilinu og séu komnir framar í goggunarröðina en íslenski landsliðsfyrirliðinn. Þá eru ótaldir Samuel Eto'o, Ronaldinho og Lionel Messi sem skipa framlínu liðsins.

Að vera um kyrrt er ekki besta ákvörðunin fyrir Eið, sagði Begiristain en ummæli hans koma í kjölfar frétta sem bárust í gær þess efnis að Eiður hefði hafnað West Ham sem hafi boðið honum tíu milljónir króna í vikulaun. Þá herma óstaðfestar fregnir að Barcelona hafi þegar samþykkt tilboð West Ham upp á 8 milljónir punda í Eið.

En Begiristain segir Eið Smára ekki eina leikmanninn sem sé ekki í framtíðarplönum Barcelona. Hann staðfesti einnig að Maxi Lopez, Thiago Motta og Santiago Ezquerro megi leita á önnur mið. Þetta er í fyrsta skipti sem áhrifamaður innan Barcelona talar opinberlega um að Eiður eigi ekki mikla framtíðarmöguleika hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×